13.12.2008 | 23:42
Svei mér þá...
...haldið þið að Ingibjörg Sólrún lesi ekki bloggið mitt!
Ég skrifaði henni opið bréf hér í gær (sem þrír lásu, ISG, Jenný og Katrín) og blekið var varla þornað í tölvunni minni þegar hún kom í útvarpið og boðaði stjórnarslit ef Sjallar felldu á landsfundi að kanna ESB aðild.
En betur má ef duga skal. En þetta var sko skref í rétta átt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.12.2008 | 16:27
Opið bréf til Ingibjargar Sólrúnar
Kæra Ingibjörg Sólrún,
mig langar að byrja á að segja þér örlítið frá mér.
Ég er miðaldra, margra barna móðir í úthverfi. Ég er millistéttin í hnotskurn. Ég er skattgreiðandinn sem heldur uppi velferðakerfinu, skólakerfinu og heilsugæslunni. Ég er kona og feministi.
Ávallt hef ég verið pólitísk, var alin upp við aðstæður sem gerðu mér ekki kleift annað en að vera jafnaðarmaður. Var samt alltaf flöktandi í stuðningi mínum við fólk og flokka. Kaus allaballana, kratana og einu sinni framsókn, en þá var ég bara að reyna koma miðli, sem var í 2. sæti listans, í bæjarstjórn. Hélt það gæti hresst aðeins upp á fundina. Hef samt aldrei áður viðurkennt það opinberlega.
Og allt í einu birtist þú á hinu pólitíska sviði.
Þegar þú talaðir þá bærðist mitt litla feminíska jafnaðarmannahjarta. Loksins, loksins var komin einhver sem skildi mig og þá framtíð sem ég vildi búa börnunum mínum, einhver með framtíðarsýn um betra og réttlátara þjóðfélag, einhver sem bauð ráðandi stjórnvöldum byrginn, einhver sem þorði, gat og vildi.
Svo kom vorið.
Ég fór í kjörklefann og setti mitt dýrmæta X á réttan stað. Grínaðist við félaga mína um að þú værir leiðtogi lífs míns og var glöð og ánægð.
Ekki mörgum dögum síðar var ég stödd á einskinsmannslandi. Flokkurinn minn allt í einu komin í heita hjónasæng með óvininum. Og hinn vinstri flokkurinn hótandi netlöggu og ég orðin hrædd um litasjónvarpið mitt sem færir mér House á fimmtudögum. Hann er svo miklu betri í lit en svarthvítu.
En kona fer ekki úr áralöngu ástarsambandi án þess að fullreynt sé að það gangi ekki upp. Ég ákvað því að vera þolinmóð og sjá hvort ekki kæmi eitthvað gott út úr þessu samstarfi. Ég viðurkenni að mér fannst þetta ekkert byrja mjög vel en langlundargeð mitt er mikið og engir aðrir vænlegir kostir voru á sjónarsviðinu.
Svo hrundi allt og nú eru liðnar nokkrar vikur.
Mér fannst gott þegar þú komst af spítalanum nokkrum dögum síðar og hugsaði að nú myndirðu beita þér af krafti fyrir þeim hugsjónum sem við áttum sameiginlegar. En það gerðist ekki. Þess í stað er leyndarhjúpur yfir baktjaldamakki og þjóðin stendur hnípin og beygð með foringja sem neita að bera ábyrgð, tala niður til hennar, færir eigurnar í hendur lánadrottnum og skuldsetur börnin hennar.
Þú hreyfir enn við mér þegar þú talar Ingibjörg. Það er bara ekki í hjartanu lengur. Meira á solar plexus svæðinu.
Og það er ekki góð tilfinning.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.5.2008 | 09:12
Ólafur F. og guðdómurinn
Alltaf þegar ég sé manninn get ég ekki varist þeirri hugsun að hann haldi að hann sé Jesú. Eða Jesúbarnið, svona óflekkaður, sannur og hreinn.
Afsakið meðan ég æli.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.4.2008 | 14:12
Ljóta lögga!
Ótrúlega kjánalega að verki staðið hjá löggunni. Ég er mjög ósátt við þessi vinnubrögð en það þarf kannski að kenna okkur Íslendingum að það borgi sig að hanga heima og röfla úti í horni eins og við höfum gert undanfarna áratugi.
Til að fyrirbyggja misskilning vil ég taka fram að fordæming á aðgerðum lögreglu er ekki hið sama og stuðningur við málstað vörubílsstjóra. Ég tek samt hattinn ofan fyrir þeim að þora, geta og vilja.
Svo er bensínverðið orðið svo hátt að almennilegir mótmælendur hafa ekki einu sinni efni á Molotov kokteilum!
Hvert er annars aldurstakmarkið svo tekið sé mark á manni í svona mótmælum?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
8.2.2008 | 15:13
Best skrifaða frétt ársins?
Þessi fína frétt birtist á vef RÚV í dag. Er þetta ekki Pulitzer material?
"Snjóflóðahætta á Vestfjörðum
Vegagerðin hefur lokað veginum um Óshlíð og Eyrarhlíð en þar féllu snjóflóð í hádeginu. Þá er viðbúið að veginum um Súðarvíkurhlíð verði brátt lokað.Varað er við snjóflóðahættu á Óshlíð og Súðarvíkurhlíð og er fólk beðið um að vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu. Snjóflóð féll úr Óshlíð um hádegisbilið og hefur henni verið lokað.
Nokkur flóð hafa fallið á veginn um Óshlíð síðan um hádegi. Bíll var fastur á milli flóða í Óshlíð og féll flóð á bílinn. Búið er að ná manninum út úr bílnum. Hann sakaði ekki og er kominn út af hættusvæðinu."
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.2.2008 | 20:25
Clinton, mín kona!
Undanfarna daga hef ég fylgst af áhuga með baráttunni um forsetaembættið í Bandaríkjunum. Hef í mörg ár dáðst að Hillary Clinton, finnst hún öflug og flott. Sá svo þetta skemmtilega próf á síðunni hans Egils og ákvað að tékka hvort ég væri nokkuð á villigötum með þennan móralska stuðning minn. (Rétt að taka fram að þeir sem taka prófið þurfa að setja inn amerískt póstnúmer, hægt að nota New York 10001 eða hið víðfræga 90210 sem er á hinni ströndinni).
Í ljós kom að við Hillary eigum samleið í ansi mörgum málum (sem ég vissi), en ég held að 55 stig úr þessu prófi sé ansi hátt. Fast á hæla hennar kemur Barack Obama með 52 stig.
McCain og ég erum hins vegar ekki að rokka, aðeins 6 stig þar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
27.1.2008 | 19:58
Niðurdregnir fordómar
Umræður um veikindi nýs borgarstjóra hafa verið fyrirferðamiklar í þjóðfélaginu undanfarið. Eðli veikindanna, þ.e. að þau hafi verið andleg, virðist skipta þar miklu máli enda eru rasandi fordómar gegn geðveiku fólki ansi víða.
En tekur það ekki út yfir allan þjófabálk þegar læknirinn og sjúklingurinn sjálfur, þ.e. Ólafur F. , opinberar fordóma sína gagnvart eigin veikindum með því að þora ekki að kalla þau sínum réttu nöfnum, loksins þegar hann tjáir sig um þau, heldur segist hafa verið "niðurdreginn". Er það formleg sjúkdómsgreining?
Ég er frekar niðurdregin í dag, hugsa að ég verði það út alla vikuna. Ætli Ólafur gefi mér vottorð fyrir vinnuna út á það?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)