12.2.2007 | 16:48
Ég og Steingrímur Joð
Rosalega skil ég Steingrím Joð þegar hann æpir fúkyrði utan úr sal á Alþingi. Stundum er bara ekkert annað hægt að gera.
Ég næstum missti mig þegar ég talaði við þjónustuver Landsbankans áðan. Meiri fávitarnir þar.
Þannig er mál með vexti að fyrir nokkrum mánuðum hringir í mig drengstauli og spyr hvort ég hafi áhuga á að hefja reglulegan sparnað hjá bankanum. Ég játti því enda ekki seinna vænna að fara safna til mögru áranna. Varð úr að ákveðin upphæð er tekin af reikningnum mínum í upphafi mánaðar og Landsbankinn ætlaði svo að sjá til þess að vel væri farið með aurana mína.
Ég þarf að kroppa aðeins í sjóðinn og hringi því í bankann og spyr hvernig maður beri sig að við það. Þá fæ ég þær upplýsingar að því miður eigi ég færri krónur á reikningnum en ég hafi lagt inn, ávöxtunin hefur ekki tekist sem skyldi.
Ha??? Voru þeir ekki að skila milljörðum á milljarði ofan fyrir sjálfa sig? Er ekki endalaus þensla og uppgangur alls staðar?
Nei, ekki þegar kemur að inneignum viðskiptavina. Þar hefur krónutalan lækkað og svo rýrnað enn frekar vegna verðbólgunnar.
Ég spurði náttúrulega hverju þetta sætti og fékk þau svör að fyrirtækjabréf væru bara ekki að gera sig þessa stundina. Ha? Hver sagði að peningarnir mínir ættu að fara í fyrirtækjabréf? Aldrei var ég spurð. Og í hvaða fyrirtækjum er verið að fjárfesta? Jú, fjármálafyrirtækjum en bara 16%. Veit þetta fólk ekki að bankarnir eru að sýna allan þennan hagnað og því viturlegt að fjárfesta í þeim? Og svo fer hellingur í "sveitarfélög". Ég er kannski ekki verðbréfamiðlari en ég hélt það væri á allra vitorði að flest sveitarfélög á landinu eru á hvínandi kúpunni eftir að þau m.a. tóku við verkefnum eins og grunnskólum frá ríkinu án þess að fá fjármagn sem dugði með þeim.
Og ekki dettur þeim hjá bönkunum í hug að færa féð sem ég fól þeim til varðveislu yfir á hagstæðari leiðir. Nei, þeir þegja bara þunnu hljóði á meðan ég skíttapa peningum í algjörum ignorans.
Og ef maður vill bara taka peningana sína og geyma þá á venjulegum reikningi þá býður bankinn ekki upp á neinn reikning sem er með vexti sem dekka verðbólguna. Sem sagt, alltaf neikvæð ávöxtun á okkar fé.
Ef einhvern tímann er tilefni til að æpa er það núna! Og ég tek undir með Steingrími og segi: HELVÍTIS, DJÖFULSINS, SHITT, FOKK, HELL!!
Athugasemdir
Á hverju heldurðu eiginlega að bankarnir græði? Auðvitað peningunum okkar ...
Hlynur Þór Magnússon, 12.2.2007 kl. 16:53
Ég
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 12.2.2007 kl. 16:57
sef með mínar krónur undir koddanum. Vona að þær ávextist yfir í seðla með góðum draumum mínum. Myndi sko taka aftur heim peningana mína. Þetta er sko rugl! Það var nú einn gaur sem mætti hér í bankann með lögmenn með sér sem fóru að gera upptæk tölvur og tæki bankans. Hann hafði fundið það út að bankinn hafði svínað á honum í ýmsum gjaldtökum og þegar þeir ekki sinntum kvörtunum hans fór hann lagalega leið og gerði upptæki tæki bankans. Gott hjá honum.
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 12.2.2007 kl. 17:00
Nú væri góður tími til þess að skipta um banka. Verst að bankarnir eru allir jafn skítlegir. Eru ekki viðskiptavinir sparisjóðanna hamingjusamastir?
Svala Jónsdóttir, 13.2.2007 kl. 00:10
Var að spá í eitt. Ef þér var ekki sagt að það ætti að fjárfesta í bréfum, getur þú þá ekki fengið það leiðrétt og bakfært, miðað við þá ávöxtun sem þú hefðir fengið ef þeir hefðu verið t.d. á verðtryggðum sparireikningi allan tímann?
Ég skráði mig í viðbótalífeyrissparnað hjá Kappa fling fling á sínum tíma, en var ekki sagt að ég væri að skrá mig í Vista, þar sem fyrstu greiðslurnar fara í eitthvað þjónustugjald eða álíka. Ég stóð í þeirri meiningu að ég væri að skrá mig í venjulegan lífeyrissparnað. Þegar hið rétt kom í ljós talaði ég við bankann, og niðurstaðan var sú að þetta var allt bakfært og leiðrétt, sett í venjulegan lífeyrissparnað og allur mismunur endurgreiddur.
Skaðar ekki að prófa. Ákafir sölumenn bankanna mega ekki ljúga að fólki, eða sleppa því að segja allan sannleikann.
Svala Jónsdóttir, 15.2.2007 kl. 01:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.