Ha, engar konur?

Var að lesa bloggið hans Binga sólbrúna með hvítu tennurnar. Þar stóð þetta: 

 

"Ég man að í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna í fyrra var Frjálslyndi flokkurinn sá eini sem viðhafði ekki prófkjör eða forval. Allt í einu kom fréttatilkynning frá flokknum um að Ólafur F. Magnússon yrði í fyrsta sæti og Margrét Sverrisdóttir í öðru sæti.

Nú virðist það sama gerast. Guðjón Arnar ákveður að vera áfram í sínu kjördæmi. Kristinn H. ákveður að bjóða sig ekki fram í Reykjavík, heldur vera í 2. sæti í Norðvestur á eftir formanninum. Valdimar Leó vill vera í Kraganum, Grétar Mar í Suðurkjördæmi og Sigurjón ákveður að vera í Norðausturkjördæmi. Í fréttum var sagt að Jón Magnússon yrði líklega í oddvitasætinu í öðruhvoru Reykjavíkurkjördæmanna.

 
Varð svo sem ekkert undrandi en það sló mig samt að konur fá ekki að vera með í Frjálslynda flokknum. Karlarnir sitja bara saman og raða hverjum öðrum í efstu sætin, skipta á milli sín leiðtogahlutverkunum, konurnar verða svo bara notaðar sem uppfyllingar. Skil ekki að þær láti ekki í sér heyra.

Fyrir ekki svo löngu síðan var ég á námskeiði sem endaði á verkefnavinnu. Við vorum sex talsins, fjórir karlar og tvær konur. Í svona vinnu eru fjögur megin hlutverk og áður en ég gat litið upp voru allir karlarnir komnir með hlutverk. Og ég spurði: hvert er mitt hlutverk? Jú, ég var "til aðstoðar". Og hið sama mátti segja um hina konuna, hún var líka til aðstoðar. Ekkert var farið eftir menntun, reynslu eða hæfileikum. Eina viðmiðið virtist vera hvort viðkomandi væri með typpi eður ei. 

Svona gerist þetta.

Ég gerði athugasemd við þetta fyrirkomulag, benti strákunum á að þetta væri hvorki sanngjarnt né réttlátt. Þeir brugðust fúlir við þessu "feministaröfli" í mér og sögðu að tilviljun ein hefði ráðið því að svona raðaðist í hlutverk. Úps, bara óvart, er viðkvæði sem er orðið soldið þreytt, sérstaklega þar sem það er sífellt notað til að réttlæta ó-meðvitund karla um hvernig skekkjan virkar þeim í hag.

Eftir þessa reynslu velti ég því líka mikið fyrir mér hvort væri skárri kostur, að standa upp og heimta sinn snúð og hljóta fyrir óvinsældir meðal þeirra sem maður þarf að umgangast daglega eða þegja bara og uppskera vanlíðan fyrir að hafa ekki staðið með sjálfri sér og sínum kynsystrum. Svo maður tali nú ekki um þá leiðindatilfinningu sem kona og allt sem hún stendur fyrir er dissuð svona.  

Margrét Sverrisdóttir ákvað að láta í sér heyra og allir vita hvernig fór fyrir henni. Bara hent eins og gamalli tusku. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þetta er einfaldlega rangt hjá þér.  Margrét var framkvæmdastjóri flokksins, Framkvæmdastjóri þingflokksinsm ritari flokksins, og í hugum okkar allra framtíðarleiðtogi.  Átti víst fyrsta sæti í Reykjavík suður bæði síðast og núna.  Og hún gengdi allskonar öðrum trúnaðarstöðum fyrir flokkinn og sat í ótal nefndum á vegum borgarstjórnar.  Þetta er því eins rangt og það getur verið.

Hún ákvað sjálf að fara í kjör til varaformanns, og varð undir í þeirri baráttu.  Það var einfaldlega kosið og meirihlutinn réði.  Þá gerðist það sem svo oft gerist að fólk móðgast og fer.  Ekkert við því að gera.  Ég sakna hennar reyndar fannt hún alltaf fín og skemmtileg kona.  En þetta var alfarið hennar ákvörðun. 

En það á enginn rétt á neinu, heldur þarf maður að una niðurstöðum félaga sinna.  Hvað varðar konur í framboð, þá eru margar konur starfandi innan Frjálslynda flokksins, ritarinn er kona, Það eru margar konur í miðstjórn, og ég er til dæmis yfirmaður kjörnefndar í Norðvesturkjördæmi.   Það virðist bara vera að konur séu ekkert á lausu við að vera í forsvari.  Í fyrsta lagi þá treysta þær sér illa til að standa í forsvari, og síðan gera þær miklu meiri kröfur til sjáfra sín en annara.  Þetta ættu konur að athuga.  Karlmenn eru ekkert að meta það hvort þeir geta eða ekki, ef þeim er treyst fyrir einhverju þá takast þeir á við það.  En allt of margar konur fyllast einhverjum ótta um að standa sig ekki.  Sennilega áhrif frá uppeldi og okkar karllæga samfélagi. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.2.2007 kl. 11:13

2 Smámynd: Ibba Sig.

Bíddu, hvað er rangt hjá mér? Ég sé ekki minnst á konur þegar kemur að framboðslistum Frjálslyndra. Og þá er ég að tala um sæti sem mögulega gæti gefið þingsæti. 

Þú segir að enginn enginn eigi rétt á neinu heldur verði að una niðurstöðum félaga sinna. Fór fram prófkjör á þessa lista eða eru "félagarnir" bara þessir karlar?

Og ég er viss um að Margrét upplifir að henni hafi verið hent út. En það er nottla bara hennar reynsluheimur sem minna er mark á takandi en alvöru heiminum sem þessir kallar búa í.

Og konur bara treysta sér víst til að vera í forsvari og eru bara víst á lausu. Þú þarft ekki að leita lengra en í aðra stjórnmálaflokka til að sjá það. Getur það verið að þær treysti sér bara ekki í þínum flokki af því að þar þurfa þær að takast á við karlahjörð sem hendir þeim eins og gömlum tuskum ef þær vilja upp á dekk' 

Ibba Sig., 22.2.2007 kl. 11:27

3 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Bingi

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 22.2.2007 kl. 11:29

4 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Bingi er ekkert að láta smáatriði eins og kyn vera þvælast fyrir sér þegar hann talar um "atkvæðin sín"

Ég held að það sé mikið til í því að konur veigri sér við að taka ábyrgðarstöður og framvarðarhlutverkin. Hef svo oft séð þetta gerast og stend sjálfa mig að því að vanmeta kosti mína og getu og horfi svo á karl taka hlutverkið sem hefur stundum ekkert í það nema sjálfstraustið. Konur telja sjálfum sér trú um að þær þurfi að vera búnar að læra allt..æfa sig og æfa sig áður en þær taka áhttuna og gera kannski mistök. Maður lærir bara með því að henda sér útí djúpu laugina og synda. Fer samt ekkert ofan af því að sumir karlar sem hafa tekið að sér störf á sjálfstraustinu einu saman hefðu bara átt að vera í sólbaði. Ibba...kannski þurfa konur bara að fara að vera fljótari að taka sér hlutverk þegar svona staða kemur upp eins og þú lýsir. Það verður þá bara að hafa það þó einhverjir fari í fýlu og amist eitthvað á vinnustaðnum. Við verðum bara að hætta að vera svo viðkvæmar og tillistssamar alltaf að við endum sem hornkerlingar. Taka bara það sem okkur ber og rífa strigakjaft ef á þarf að halda. Þetta er ekki um hvað þeir gera eða gera ekki..heldur um hvernig við gerum. Þetta er okkar líf og hamingja. Vipð´ráðum algerlega hverjum við gefum vald yfir okkur.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 22.2.2007 kl. 11:39

5 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Já, þær eru margar "tilviljanirnar" sem verða til þess að karlar enda næstum alltaf á toppnum og konurnar eiga að "aðstoða" og bíða stilltar eftir því að það komi einhvern tímann að þeim.  

Margrét Sverrisdóttir veigraði sér ekki við að taka ábyrgðarstöðu, en ekki var hún metin að verðleikum af sínum samherjum. Ef það hefði verið EITTHVAÐ vit í flokksfólki Frjálslynda flokksins, þá hefði það kosið hana með yfirburðum á landsfundinum.

 Nú er eina konan í forystu flokksins ritari. Er það ekki alveg brjálæðislega týpískt? Enda hef ég enga trú á því að margar konur kjósi þennan flokk.

Svala Jónsdóttir, 22.2.2007 kl. 11:50

6 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

Þetta er sama syndróm og hjá íhaldinu - þar tuða þeir on and on um að valið standi ekki á milli kalls og konu - besta manneskjan sé einfaldlega valin. En ég spyr - afhverju er besta manneskja svona mikið oftar kall en kona?

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 23.2.2007 kl. 16:38

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það er auðvelt að dæma svona.  Eða voruð þið á fundinum og hlustuðuð á framboðsræður þeirra tveggja sem voru í framboði.  Þetta var heiðarleg niðurstaða og þarna voru bæði menn og konur að kjósa. 

Margrét hefur einfaldlega ekki getað útskýrt fyrir hvað hún stendur og hvert hún ætlar að stefna.  Það kemur vonandi.  En eins og er vitum við það ekki. 

Vonandi farnast henni vel.  En hún veit vel sjálf að henni stóð til boða að leiða lista Frálslyndra alveg þangað til hun sagði sig úr flokknum, og meira að segja eftir það, þá var hún beðin um að koma aftur og taka sætið, en neitaði því.  Hún einfaldlega vildi ekki spil með lengur.  Og það hafði mest að gera með að hún tapaði í kosningunum.  Þegar maður ætlar að vera leiðtogi, þá þarf eitthvað meira.  En hún á ef til vill eftir að sýna okkur hvað í henni býr, og á sínum forsendum.  Hún er klár og góð stelpa. Tíminn mun einfaldlega leiða það í ljós.   

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.2.2007 kl. 20:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband