23.3.2007 | 17:34
Að fá sínu framgengt með lögbrotum
Rosalega var hann vankaður drengurinn sem sagt var frá í Kastljósinu í gær, þessi sem setti myndband á netið af sjálfum sér í ofsaakstri á mótorhjóli. Þar fór hann upp í 300 km hraða á Garðsvegi. Og hann var ekkert einn á ferð á þessum slóðum því hann mætti fullt af bílum með saklausu fólki í. Svo rífur helvítið bara kjaft og félagar hans líka en þeir halda því fram að í mótorhjólaslysum slasist enginn nema þeir.
Hver ætli greiði fyrir lækniskostnaðinn og endurhæfinguna? Þeir sjálfir með laununum sem þeir fá fyrir vinnu sína sem kjarneðlisfræðingar? Held ekki.
Og hvað er með þessa hjólabraut? Eru opinberir aðilar að koma að byggingu hennar? Er þetta rétta leiðin til að ná sínu fram? Brjóta lögin og hóta út og suður svo eytt sé milljónum á milljónum ofan til að gera aðstöðu fyrir áhugamál lítils hóps í þjóðfélaginu.
Ef svo er þá heimta ég að byggt verði hús þar sem ég get saumað út. Ég mun annars sauma verulega að öllum sem koma að stjórn landsins og fullt af saklausum borgurum, einbeiti mér jafnvel að saklausum hvítvoðungum. Hvernig líst ykkur á það? Er það það sem þið viljið? Ha?
Mér finnst að það eigi bara að stinga þessu liði inn, taka af því prófið og koma með öllum ráðum í veg fyrir að það snerti ökutæki öðruvísi en sem farþegar. Eða bara leyfa þeim að hjóla út af kvartmílubrautinni á 300 km hraða. Helst að vori til því náttúran vinnur verk sitt hraðar á sumrin.
Ef einhverjum finnst ég fara yfir strikið í þessari færslu þá verður svo að vera. Mæli með að þeir hinir sömu kíki inn á síðu Kastljósstjörnunnar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.