27.3.2007 | 18:31
Að kjósa með og á móti
Ég er einn þeirra landsmanna sem er svo "heppinn" að fá að taka þátt í kosningu um deiliskipulag í Hafnarfirði. Þessi kosning hefur verið kölluð "kosning um álver í Straumsvík" og talað er um að fólk sé annað hvort að kjósa með eða á móti álveri.
Það upplýsist nú að ég ætla að kjósa með, þ.e. með óbreyttu ástandi. Ég vil sem sagt ekki að álverið verði stækkað. Þeir sem vilja að álverið verði stækkað geta bara tekið á sig hlutverk fúls á móti og kosið á móti... óbreyttu ástandi.
Langar að halda því til haga að málflutningur Alcan hefur breyst dag frá degi sl. vikur, úr því að "við ætlum ekki að loka", yfir í "gæti verið að við myndum loka eftir 14-21 ár" og til þess að Rannveig Rist sagði í Kastljósinu að miklar líkur væri á því að álverið lokaði eftir 6 ár. Hmmm, ætli fólk sé svo skyni skroppið að sjá ekki hvað verið er að gera?
-ég ætla líka að kjósa með íslenskri náttúru sem á undir högg að sækja þessi misserin
-ég kýs líka með minni losun gróðurhúsalofttegunda en eins og almenningur vonandi veit mun losun þeirra aukast úr um 250 þús tonnum í ca 750 þús tonn með stærra álveri. Ég kýs líka með minni svifryksmengun, minni flúormengun og minni losun brennisteinskoldíoxíðs.
-mig langar líka að kjósa með minni þenslu í þjóðfélaginu. Við gleymum alltaf að taka með í reikninginn hvað svona framkvæmdir kosta heimilin. Húsnæðislánið mitt hækkar og hækkar og svo þarf ég að greiða mun hærri vexti en ella. Er einhver búinn að reikna það saman hvað heimili landsins eru að borga með þessum stóriðjuframkvæmdum á þennan hátt? Held það sé slatti af milljörðum.
-ég er líka að kjósa með öðrum atvinnugreinum á landinu, sprotafyrirtækjum og annars konar iðnaði. Af hverju tala stjórnmálamenn ekki lengur um ruðningsáhrifin af svona framkvæmdum. Nú má allt í einu ekki viðurkenna að svona framkvæmdir hefta allar aðrar atvinnugreinar.
- ég kýs með komandi kynslóðum og rétti þeirra til að ráðstafa einhverju af auðlindum landsins, að við verðum ekki búin að fullnýta þær allar fyrir erlenda auðhringi.
-síðast en ekki síst er ég að kjósa með nýjum stjórnvöldum sem ekki leggja ofuráherslu á stóriðju.
Mikið svakalega er ég eitthvað jákvæð í dag. Ætli það sé ekki kominn tími á tíma hjá sálfræðingnum? Ef ég gæti mín ekki fer ég kannski að kjósa með því að útrýma Framsókn úr íslenskri pólitík. Ha?
Athugasemdir
Amen, sistha!! Djö...ll ertu mælsk! (Pardon my French)
Hugarfluga, 27.3.2007 kl. 18:46
Flott hjá þér Ibba mín. Og vonandi verða sem flestir á þínu máli. Ég lofa að krossa fingur og tær.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.3.2007 kl. 18:52
Mér er sagt að í kvöldfréttum Stöðvar 2 hafi komið viðtal við Valgerði utanríkisráðh. og fyrrverandi iðnaðarráðherra. Það sagði hún að með vaxandi hlýnun og vaxandi bráðnun jökla því samfara myndu skapast mikil tækifæri fyrir okkur Íslendinga!!
Nú er mér kunnugt að þessi kona á börn og því hlýt ég að spyrja? Er þessari manneskju barasta sjálfrátt að nefna mestu vá heimsbyggðarinnar á sögulegum tíma TÆKIFÆRI. Reyndar er hún ekki ein um að bera þetta mál fram í þessu samhengi. Í dag er það viðurkennt af næstum öllum náttúruvísindamönnum að ein af drýgstu orsökum þessarar yfirvofandi heimsvár sé kapphlaup iðnríkjanna eftir meiri sóun og mengandi efnalosun. Ef ég léti frá mér fara allar þær ályktanir sem mér koma nú í hug yrði ég tæpast frjáls maður við næstu sumarkomu.
Árni Gunnarsson (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 20:22
Frábær pistill. Ég vona að meirihluti Hafnfir[inga kjósi með þér á laugardaginn og hafni stækkun. Bestu baráttukveðjur,
Hlynur Hallsson, 27.3.2007 kl. 20:47
Flottur pistill og flott hjá þér að kjósa rétt. :)
Svala Jónsdóttir, 28.3.2007 kl. 21:34
Ætlaði að kjósa á móti stækkun,en svo tók samviskan við sér og hef ákveðið að kjósa með stækkun. Ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að ég vil að Ibba fái tækifæri til að upplifa þau forrréttindi karla að fá að starfa í álveri. Vittu til Ibba, þú átt eftir að fá margföld laun auk þess að fá aðgang að reykfylltum bakhergergjum, milli þess sem þú brennir af þér augnhárin og það sem eftir er af skapahárunum.
Þess utan vil ég endilega að þessi Hlynur Hallsson, sem er ekki bara varaþingmaður fyrir VG, heldur líka "listamaður" nái meiri dýpt í túlkun sinni með því að upplifa alvöruna, frekar en að vera á spena ríkisins. Það er takmörk fyrir því hvað almemingur getur afborið að sjálfumglöðum menntskælingum sem ekki ná fullum þroska.
Þrándur (IP-tala skráð) 31.3.2007 kl. 02:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.