Opið bréf til Ingibjargar Sólrúnar

Kæra Ingibjörg Sólrún,

mig langar að byrja á að segja þér örlítið frá mér.

Ég er miðaldra, margra barna móðir í úthverfi. Ég er millistéttin í hnotskurn. Ég er skattgreiðandinn sem heldur uppi velferðakerfinu, skólakerfinu og heilsugæslunni.  Ég er kona og feministi.

Ávallt hef ég verið pólitísk, var alin upp við aðstæður sem gerðu mér ekki kleift annað en að vera jafnaðarmaður. Var samt alltaf flöktandi í stuðningi mínum við fólk og flokka. Kaus allaballana, kratana og einu sinni framsókn, en þá var ég bara að reyna koma miðli, sem var í 2. sæti listans, í bæjarstjórn. Hélt það gæti hresst aðeins upp á fundina. Hef samt aldrei áður viðurkennt það opinberlega.

Og allt í einu birtist þú á hinu pólitíska sviði. 

Þegar þú talaðir þá bærðist mitt litla feminíska jafnaðarmannahjarta. Loksins, loksins var komin einhver sem skildi mig og þá framtíð sem ég vildi búa börnunum mínum, einhver með framtíðarsýn um betra og réttlátara þjóðfélag, einhver sem bauð ráðandi stjórnvöldum byrginn, einhver sem þorði, gat og vildi. 

Svo kom vorið. 

Ég fór í kjörklefann og setti mitt dýrmæta X á réttan stað. Grínaðist við félaga mína um að þú værir leiðtogi lífs míns og var glöð og ánægð. 

Ekki mörgum dögum síðar var ég stödd á einskinsmannslandi. Flokkurinn minn allt í einu komin í heita hjónasæng með óvininum. Og hinn vinstri flokkurinn hótandi netlöggu og ég orðin hrædd um litasjónvarpið mitt sem færir mér House á fimmtudögum. Hann er svo miklu betri í lit en svarthvítu. 

En kona fer ekki úr áralöngu ástarsambandi án þess að fullreynt sé að það gangi ekki upp. Ég ákvað því að vera þolinmóð og sjá hvort ekki kæmi eitthvað gott út úr þessu samstarfi. Ég viðurkenni að mér fannst þetta ekkert byrja mjög vel en langlundargeð mitt er mikið og engir aðrir vænlegir kostir voru á sjónarsviðinu.

Svo hrundi allt og nú eru liðnar nokkrar vikur. 

Mér fannst gott þegar þú komst af spítalanum nokkrum dögum síðar og hugsaði að nú myndirðu beita þér af krafti fyrir þeim hugsjónum sem við áttum sameiginlegar. En það gerðist ekki. Þess í stað er leyndarhjúpur yfir baktjaldamakki og þjóðin stendur hnípin og beygð með foringja sem neita að bera ábyrgð, tala niður til hennar, færir eigurnar í hendur lánadrottnum og skuldsetur börnin hennar. 

Þú hreyfir enn við mér þegar þú talar Ingibjörg. Það er bara ekki í hjartanu lengur. Meira á solar plexus svæðinu.

Og það er ekki góð tilfinning. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Brilljant hjá þér. 

Og ég ætla ekki að segja "I told you so".

Jenný Anna Baldursdóttir, 12.12.2008 kl. 16:48

2 Smámynd: Ibba Sig.

Ert þú bara á bloggvaktinni kona?

Ibba Sig., 12.12.2008 kl. 16:58

3 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Við stöndum bloggvaktina eins og herforingjar Ibba mín. Hrikalega góður pistill hjá þér..vona að Ingibjörg lesi hann.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 12.12.2008 kl. 17:58

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Missi aldrei úr færslu hjá þér kjéddling.

Jenný Anna Baldursdóttir, 13.12.2008 kl. 23:48

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Rakst hérna inn af hreinni tilviljun og mátti til að hrósa þér fyrir þetta stórgóða bréf! Þetta eru alveg frábær skrif hjá þér og reyndar ætti Ingibjörg Sólrún alveg skilyrðislaust að fá það í hendur þannig að hún lesi örugglega þessa þörfu en hlýju ábendingu!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 14.12.2008 kl. 15:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband