Færsluflokkur: Bloggar

Heimskona

Eins og þeir sem þekkja mig vita, er ég mikil heimskona. Er í íslenska þotuliðinu og er sífellt á ferð og flugi. Hef m.a. á einu ári komið á Reyðarfjörð, Borgarnes, Ísafjörð (og þaðað fór ég í bíltúr á Súganda) og nú í dag á Snæfellsnesið.
Djöfull var kalt.
Stoppaði í sjoppunni í Grundarfirði og sá þá hversu vel ég er orðin að mér í íslenskri sjoppulandafræði. Ég hafði ekki hugmynd um hvort ég hefði áður komið á þennan stað fyrr en ég kom inn í sjoppuna. Þá fór mín að kannast við sig. Já, hugsaði ég, þetta er bærinn sem var gulur, rauður, grænn og blár í fyrra! Er ég snjöll eða hvað? Reyndist hafa verið þarna sl. sumar þegar einhver "dagur" var í gangi.
Og nota bene, hvernig nenna öll þessi bæjarfélög að hafa svona mikið fyrir því að lokka fólk í sjoppuna á staðnum á sumrin. Eða hvaða annan tilgang hafa allir þessir danskir/franskir/færeyskir/humar/ og fiski-dagar? Við Ibbi gerum yfirleitt lítið annað en að kaupa pulsur ofan í ómegðina á svona stöðum.
En það er eitt sem ég skil ekki. Hvernig ætli útlenda þotuliðið fari að því að líta alltaf svona vel út? Ég er veðurbarin, með hárið út í loftið og eldrauð í framan af útiveru. (En samt ennþá ferlega sæt). Er þetta spurning um eitthvað nýtt meik? Kannski tegundina sem var auglýsti í Americas next top model í gær? Einhver?
Að lokum er gaman að segja frá því að á næstunni liggur leiðin að Skógum, í Skálholt, til Vestmannaeyja og jafnvel í Skagafjörðinn.
Er ég heimskona Íslands eða hvað?

Damsel in distress

Ég fer að verða eins og Gettu betur nördinn Stefán Pálsson sem bölvar Moggablogginu í hverri einustu færslu sem hann setur inn á blogg menningarvitanna á Kaninku. Það virkar bara ekkert hérna. Hér er listi yfir það sem er að hjá mér núna:

1. Ég get bara skrifað færslur endrum og sinnum. Þess á milli neitar bendillinn að festa sig í textahólfinu.

2. Það vantar á mig hárið.

3. Bloggvinir mínir eru ósýnilegir. En það er svo sem ekkert nýtt, ég hef bara átt ósýnilega vini síðan ég var barn. En maður vill nú monta sig þegar maður loksins eignast raunverulega vini, þótt það sé ekki nema í netheimum.

5. Ég sendi póst til hjálparaðilanna á blogginu og var þar með djók um Annþór handrukkara en þeir sem vinna þarna skildu hann ekki. Kannski af því að ég mundi ekki nafn Annþórs og skrifaði brandara um einhvern Annas.

6. Vinsældarlistinn hér er annað hvort bilaður eða það er einhver klíka sem getur breytt honum eftir eigin höfði. Já, ég veit að þegar maður kemur með svona alvarlegar athugasemdir þarf maður að bakka þær upp. Og sannanirnar eru hér svart á hvítu, ég kemst ekki á top 10 á vinsældarlistanum. Þarf frekari vitnanna við? Ha?

 

Og svo þegar ég kíkti á þessa færslu sá ég að hún var öll í einni kássu svo ég þurfti að fara aftur hér inn og laga (og bæta þessu vjið). Og svo vantar lið númer 4, en ætli það sé ekki mín sök?


Hjálp!

Þrátt fyrir að ég sé tækniséní hefur mér ekki tekist að setja inn mynd af mér undir höfundarupplýsingar.

Ég tel það ansi mikilvægt að koma myndinni inn enda er ég lekker dama og er viss um að fegurð mín muni draga marga inn á þetta blogg. Sjáið bara Binga, ekki er hann að fá þessa traffík inn á síðuna sína út af því sem hann skrifar. Nei. Þangað kemur fólk til að líta fallega sólbrúnkuna, gleraugnaaðgerðina og tannhvíttunina. Þar fer sko fjárfesting sem borgaði sig. Það kostar kannski 20 þús kall að hvítta tennur, 5000 kall að fara í brúnkusprey og augnaðgerðin kostar 300 þús.

Sem sagt, fjárfesting upp á 320.000 á móti væntanlegum ca 30 millum í laun sem borgarfulltrúi næstu fjögur árin.  Æ, gleymdi að taka með í reikninginn að hann seldi sálu sína Sjálfstæðismönnum í borginni. En hún hefur varla verið mikils virði. Hann er nú einu sinni í Framsókn.

En þetta var allt saman útúrdúr. Ég ætlaði bara að spyrja hvort einhver gæti sagt mér hvernig ég set inn mynd.


Sanngjarnt?

Skrítið. Í marga mánuði hef ég ekki getað skrifað á þetta fína blogg mitt og með því fest mig í sessi sem einn af mest lesnu bloggurum Moggans. Þetta er eins og að keppa í 100 m hlaupi og allir hinir fá að byrja langt á undan mér. Fúlt.

En ég verð bara að vera dugleg að skrifa, þannig næ ég upp forskotinu. Verst að ég er í vinnu og á mann og ómegð.

 

 


Handboltaæði í uppsiglingu

Vá hvað þetta var góður leikur á móti Frökkum. Mér líður eins og eftir B-heimsmeistarakeppninna sem var árið sautjánhundruð og súrkál (þetta er ártalið sem ég nota þegar ég man ekki hið rétta. STundum nota ég samt ártalið 1918 enda svo margt sem gerðist þá, frostaveturinn mikli, og eitthvað fleira sem ég man ekki). Kannski ég grafi bara upp öskjuna með myndböndunum af "Leiðin að titlinum" sem eins og mínir noexistent lesendur vita, innihélt spólur með öllum leikjunum í keppninni. Ég mun líka kaupa spólusafnið sem kemur út eftir að við verðum heimsmeistarar í alvöru keppni. Ja, allavega ef það verður í flottri öskju sem sómir sér vel í stofuhillunum.


Lognið á undan storminum

það er frekar rólegt í vinnunni í dag. Bara ýmis eftirfylgni verkefna og svoleiðis dútl. Sem er gott þar sem fram undan er annasamur mánuður, bæði í leik og starfi. Nú þegar er ég búin að bóka mig í sex rauðvínsdrykkjur í desember og svo þarf ég að halda þrjár afmælisveislur fyrir fjölskyldumeðlimi fyrir jól. Og ofan á þetta bætist að desember er víst annasamasti mánuðurinn í vinnunni. Ég hef svo sem aldrei reynt það á eigin skinni þar sem ég byrjaði bara hérna í vor en ég get ekki neitað því að ég hlakka svolítið til. Mér leiðist nefnilega of mikil lognmolla.

 


Fyrsta bloggfærsla

Það er víst engin kona með konum nema hafa blogg. Varð að prófa.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband