Færsluflokkur: Bloggar
16.6.2007 | 23:45
Að skáka Ellý....létt mál!
"Heyrðu elskan" sagði ástleitni elskhugi vinkonu minnar eitt kvöld í vikunni og strauk á henni bakið. "Eigum við að fara Þrengslin í kvöld?" en "Þrengslin" eru þeirra leyniorð fyrir þá tegund kynmaka sem oft eru kennd við Sódómu. Ævintýragjarna vinkona mín, sem allajafna er mikið gefin fyrir..... bla bla bla
Get ekki klárað svo mínir kæru lesendur, allir þrír, verða að geta í eyðurnar og veitt verða verðlaun þeim sem fatta hvað "Þrengslin" eru í sögubrotinu hér að ofan. Datt þetta í hug á ferðum mínum um Suðurland í dag.
Bloggar | Breytt 27.6.2007 kl. 13:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.6.2007 | 14:28
Gott hjá Agli....
...að fara frá Stöð 2.
Ég hef verið hálfhissa í allan vetur yfir pródúksjóninni á þættinum hans, þátturinn lítur út eins og um tilraunaútsendingar frá Fellaskóla sé að ræða.
Steininn tók þó úr þegar settið samanstóð af fjórum skólaborðum svo liðið sat því sem næst ofan á hvort öðru. Og að auki var búið að vefja borðfæturna með cellofani í lélegri tilraun til að láta þetta líta betur út. Treysti því að Rúvarar geri þetta betur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.5.2007 | 22:20
Flott hjá Samfylkingu, ekki eins smart hjá Sjöllum
Ég er nokkuð hrifin af ráðherravali Samfylkingarinnar. Hefði þó frekar viljað sjá Ágúst Ólaf inni en Björgvin. Enda var Ágúst augljóslega svekktur yfir sínum hlut. En hann er ungur enn og fær örugglega að vera með næst.
En listi Sjalla er algerlega geldur og dýralæknirinn er aftur settur í fjármálaráðuneytið, arg! Og sem fyrr bera konur skarðan hlut frá borði. Ég er mjög tvístígandi með hvað mér finnst um að Björn sé enn ráðherra dóms- og kirkjumála því ég er afskaplega ósammála honum með margt en ég veit líka að hann er dugnaðarforkur og hann hefur reynst þeim geira sem ég starfa í afskaplega vel og komið mörgum góðum málum í gegn, hratt og örugglega. Það er ekki slæmt að eiga svoleiðis hauk í horni. En bjarta hliðin er sú að Sturla er farinn úr stjórn enda er hann imbecile, eða því sem næst.
Mikið hlakka ég til að sjá málefnasamninginn sem birtur verður í fyrramálið.
Þrjár konur og þrír karlar ráðherrar fyrir Samfylkingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
16.5.2007 | 14:45
Nýyrðasmíði Mbl fólks
Eru stærri verslanir nú allt í einu orðnar "rúmmeiri"? Væri ekki betra að nota bara orðið stærri? Ja, eða rúmbetri.
Og ég farin að fréttablogga. Öðruvísi mér áður brá.
Ný kynslóð lágvöruverðsverslana | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.5.2007 | 16:49
Ég er flink að kjósa!
Ég fór á utankjörfund á þriðjudag og uppfyllti þar mínar borgaralegu skyldur. Eftir því var tekið hvað ég er flink i að kjósa, hvað ég gerði það vel og hversu rétt ég kaus. Sjálf var ég bara nokkuð ánægð með mig, ég hélt þéttingsfast um stimpilinn (já, maður fær að stimpla listabókstafinn á kjörseðilinn) og stimplaði ákveðið í miðju seðilsins. Svo stóð ég dágóða stund og dáðist að handverki mínu. Fallega essið ljómaði og ég gekk út í vorsólina vitandi að ég hafði staðið mig vel.
Ég vona bara að aðrir landsmenn fari að mínu fordæmi og vandi sig við þetta. Þá fer allt vel.
Annars er ég á ferð í landi Englanna (Englandi) og er þegar þetta er skrifað á fleygiferð í lest. Mikið er skemmtilegt að geta dregið upp tölvuna, farið á netið og fylgst með kosningaspennunni heima á meðan ferðast er, í stað þess að sitja og góna á enskt sveitalandslag.
Það er nú samt líka hasar hér. Þegar lestin var rétt lögð af stað fékk maður hjartaáfall hér rétt hjá mér (eða ég greindi það svo úr mínu leikmannasæti). Spurt var i kallkerfinu hvort læknir væri um borð og ég var að hugsa um að bjóða mig fram, hef horft á marga ER þætti og treysti mér því til að leysa ýmis læknisfræðileg mál. Um það bil sem ég stóð upp úr sæti mínu ruddist menntaður læknir fram hjá mér og kom manninum með hjartaáfallið til aðstoðar. Algerlega týpískt hvernig karlarnir halda alltaf að þeir séu betri en við konurnar. Ha?
Svo vona ég að flugfélagið flytji mig heim í tæka tíð fyrir kosningasjónvarpið og fertugsafmælið sem er á laugardagskvöld en ég á að lenda um miðjan dag.
Ciao
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.5.2007 | 16:16
Sígaunum vísað úr landi
Sá á mbl.is að 19 rúmenum hefði verið vísað úr landi. Gef mér það að þarna hafi verið um að ræða sígaunar sem hafa verið á ferðinni hérna undanfarið.
Ég er nokkuð róleg yfir fullorðnu fólki sem kýs að vinna fyrir sér hér með því að "spila" á harmonikkur og fiðlur. En þegar það fer að nota börnin sín til þessarar iðju þá kemur upp á mér kryppan og sést í vígtennurnar.
Þoli ekki að sjá börnin þenja nikku tímunum saman eða liggja í fangi móður sem situr og betlar. Greyin fá engu um þetta ráðið og eiga betra skilið.
Annars hlýtur betl að gefa vel af sér. Einhver ástæða er fyrir því að heilu þjóðflokkarnir kjósa að lifa á þeirri iðju.
Svo hefur heyrst að sígaunarnir steli öllu steini léttara. Ég vil samt ekki alhæfa um hópinn en þjófum ætti alltaf að refsa, sama hverrar þjóðar þeir eru.
Og svo sefur aumingjans fólkið úti, brrr.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
7.5.2007 | 15:36
Hver er ég?
Fann þessi skemmtilegu próf inni á síðunni hennar Dúu dámsamlegu. Og svo virðist sem ég sé Sunset Boulevard. Mynd sem ég hef ekki séð og gaman væri ef einhver getur sagt mér um hvað hún snýst. Annars held ég að þetta hljóti að vera gamanmynd um snilling.
Og svo tók ég líka próf um hvaða þjóðhöfðingi ég er og þetta er útkoman:
Að mörgu leyti ekki leiðum að líkjast. Allavega skárri en Saddam Hussein sem Dúa líkist. Sem, bæ ðe vei, fékk mig til að taka þetta próf alvarlega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.5.2007 | 21:40
Hvar eru þeir?
Mig langar að velta upp þeirri spurningu hér af hverju Sigurður Kári , Birgir Ármanns og hinir frjálshyggjuguttarnir sjást ekki í þessari kosningabaráttu. Þeir sem voru alls staðar fyrir nokkrum mánuðum að boða frjálshyggjustefnu Sjálfstæðisflokksins. Eru þeir geymdir í sama skáp og Árni Johnsen? Eru Sjallar hræddir við að sýna sitt rétta andlit svona rétt fyrir kosningar?
Og svo skrifar Sif undir samning um tannlæknaþjónustu fyrir tvo árganga af börnum, þriggja og tólf ára ef mig misminnir ekki. Aumingja fjögurra ára börnin sem eiga foreldra sem geta ekki greitt fyrir þjónustua, þau verða að bíða í átta ár þar til ríkið er til í að taka almennilega þátt í kostnaðinum. En takið eftir að stóran hluta kostnaðar verða foreldrar enn að bera.
Og að Jónínu Bjartmarz. Í mínum huga er algerlega ljóst að konan hefur eitthvað að fela. Ef hún er með alveg hreina samvisku, hvers vegna var hún þá að veifa skýrslu um mannréttindabrot í Guatemala í Kastljósviðtalinu og gefa í skyn að tilvonandi tengdadóttir hennar hefði lent í svoleiðis?
En gott samt að stelpan fékk háar einkunnir
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.4.2007 | 20:00
Svona er lífið í aðdraganda kosninga
Mér finnast síðustu vikurnar fyrir kosningar alltaf ákaflega skemmtilegar en jafnframt erfiðar. Ég hef svo gaman af pólitík og elska kappræður frambjóðenda. Þá sit ég heima í stofu með popp í annarri og kók í hinni, horfi á gamla sjónvarpshlunkinn minn og fagna og púa eftir því sem við á auk þess að pirrast alveg óskaplega þegar sumir opna munninn og út vella frasarnir.
En þetta tímabil fer samt ekkert vel með mig. T.a.m. eyði ég of miklum tíma í að fylgjast með þessu, tíma sem ég kannski hef ekki lausan. Nú eru t.d. um tvo tonn af þvotti í kjallaranum, eldhúsið hefur ekki verið skúrað í nokkrar vikur og annað eftir því. Þetta er þó smotterí sem engum kemur á óvart enda hef ég ekki verið þekkt fyrir að vera neitt sérstaklega húsleg í mér.
Annað neikvætt er hvernig aðdragandi kosninga fer á sálina á mér. Ég verð of oft reið, það sýður á mér, ólgar í brjóstinu. Það er ekki góð tilfinning því maður á nottla að vera með ljós í hjartanu allt árið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
21.4.2007 | 19:46
Í boði stjórnarflokkanna
Geðsjúkir vistaðir á klósettum geðdeildar - í boði Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks
Eins og hálfs árs bið fyrir geðsjúk börn sem þurfa að komast á BUGL - í boði Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks
Ofurverðbólga og þensla - í boði Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks
Hæstu vextir í heimi - í boði Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks
Barnabætur sem byrja að skerðast við tekjur sem eru innan við 100 þús krónur - í boði Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks
Skemmdar tennur barna efnalítilla foreldra - í boði Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks
Helmingi hærri kostnaðarhlutdeild sjúklinga en árið 1995 - í boði Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks
5000 fátæk börn - í boði Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)